Frumvarpið

Í dag var lagt fram frumvarp um breytingu á lögum sem varða útlendinga og réttarstöðu þeirra, sem hægt er að lesa hér. Minn var heiðurinn að leggja þetta fram, og ég var mjög ánægður með viðbrögðin sem það fékk. Að neðan er ræðan sem ég hélt fram, þar sem ég rökstyðja af hverju þetta frumvap er svo mikilvægt.

Virðuleg forseti

Innflytjendamál fá sífellt meiri athygli í fjölmiðlum, enda fjöldar innflytjendum hratt. Ísland er að breytast. Við vitum vel að atvinnuleysi er sáralítið, að samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík hefur hegningarlagabrotum þar sem útlendingar eiga hlut að máli ekki fjölgað, og að í síðustu skoðanakönnun um málið kemur fram að meira en helmingur landsmanna hefur jákvætt viðhorf gagnvart því að Ísland verði fjölmenningarsamfélag. Allt þetta eru staðreyndir þrátt fyrir að fólk hefur flust til landsins í þúsundatali.

Við erum greinilega að gera margt gott, en við getum gert enn betur. Þjóð sem hefur góða samþættingarstefnu byggir upp traust og blómstrandi hagkerfi, en land án samþættingarstefnu sáir fordómum, eykur stéttaskiptingu, og stuðlar að óstöðugu hagkerfi. Ég legg áherslu á “samþættingu” í stað “aðlögunar”. Það er vegna þess að við viljum auðvitað að fólk sem kemur hingað taki virkan þátt í samfélag okkar án þess að yfirgefa sína eigin menningu. Sjálf erum við til dæmis stolt af sjá að Íslendinga í Gimli í Kanada halda í sína menningu, og það er engin spurning um að þetta fólk er að leggja mikið til kanadískrar menningar.

Samþætting ætti að vera þverpólitískt mál. Ég hef fulla trú á því að bæði vinstrimenn og hægrimenn vilji að við gerum okkar besta til að taka vel á móti þeim sem hingað koma. Í þau átta ár sem ég hef verið á Íslandi hef ég tekið eftir að margt er ábótavant í innflytjendamálum hér á landi. Í þessu frumvarpi eru tillögur sem eiga að leysa þau vandamál sem ég hef sjálfur haft reynslu af eða sem mér hefur verið sagt frá.

Í fyrsta lagi er það staðreynd að meira en helmingurinn af ungu fólki af erlendum uppruna fara ekki í gegnum framhaldskóla. Þetta er sorgleg staðreynd sem getur aukið stéttaskiptingu, og komið í veg fyrir samþættingu innflytjenda. Hluti af þessu vandamáli er greinalega að sem stendur krefjast lögin þess að innflytjendur sem verða átján ára uppfylli skilyrði dvalarleyfis með því að sýna sjálfur fram á að framfærsla, sjúkratryggingu og húsnæði sé tryggt. Í mörgum tilvikum hefur þetta í för með sér að þeir neyðist til að vinna fyrir sér í stað þess að vera áfram í skóla. En það getum við breytt, með því að erlendum ungmennum verði gefinn kostur á dvalarleyfi þegar þau verða átján ára, gegn framvísun yfirlýsingar foreldris eða framfæranda um að þessu meginskilyrði dvalarleyfis sé fullnægt. Þannig getum við hjálpað til að sjá til þess að allir nemendur hafi jafnt tækifæri til að læra það sem þau langar til, skapa sitt eigið líf, og taka þátt í íslensku þjóðfélagi.

Við erum auðvitað öll sammála því að enginn eigi að þurfa að þola heimilisofbeldi, og enginn á skilið að vera refsað fyrir að skilja við maka sem beitir slíku ofbeldi. En það er því miður það sem gerast hjá sumum konum af erlendum uppruna, sem hafa sætt slíku ofbeldi, en hafa ekki þorað að slíta sambúð sinni af ótta við að missa rétt til dvalar í landinu. Ég tel að það sé löngu tímabært að úr þessu sé bætt með þeirri lagasetningu sem hér er lagt til, enda er það í fullu samræmi við hugmyndir frá félagasamtökum eins og Stígamótum og Kvennaathvarfinu.

Það er líka rétt að leiðrétta það óréttlæti sem felst í 24-ára reglunni svokölluðu. Hún felur í sér að erlendur maki geti ekki fengið dvalarleyfi ef makin er 24 ára eða yngri. Það er nú þegar kveðið á um í lögum að ef rökstuddur grunur er um að stofnað sé til málamyndunarhjúskapar til að afla dvalarleyfis þá veiti það ekki rétt til dvalarleyfis. Reglan er því óþörf gagnvart þeim sem rökstyðja má að muni fara framhjá lögunum, en óréttlát gagnvart öðrum.

Sem stendur er útlendingur með atvinnuleyfi bundinn af því að vinna aðeins á einum stað, eða sækja aftur um atvinnuleyfi ef hann vill vinna annars staðar. Svona umsóknarferli er bæði ósveigjanlegt og erfitt fyrir bæði umsækjendur og atvinnurekendur. Eigum við ekki frekar að veita erlendum starfsmönnum frelsi til að vinna þar sem þeirra er þörf og þar sem þeir vilja sjálfir starfa? Það er líka í samræmi við það sem stendur í stefna ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda:

Tryggt verði að útlendingar á vinnumarkaði njóti sambærilegra réttinda og íslenskt launafólk og að allar ráðningar erlends verkafólks séu í samræmi við gildandi kjarasamninga. Komið verði í veg fyrir félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

Frelsi til að vinna þar sem maður vill, þar sem þess er þörf, til að byrja þegar maður vill að byrja og hætta þegar maður vill hætta – það er hluti af grunnréttindum starfsfólks.

Því miður hafa komið upp nokkur dæmi um að erlent starfsfólk fái borgað minna en íslenskir verkamenn, fá ómannsæmandi húsnæði, og viti ekki einu sinni að stéttarfélög eru til hér á landi. ASÍ er búið að taka saman frábæran bækling fyrir innflytjendur, og þýða yfir á rúmlega 20 tungumál, sem útskýrir réttindi þeirra. Þessar upplýsingar þurfa að komast í hendur hverrar einustu manneskju sem flytur til landsins, og hægt er að afhenda einstaklingum hann um leið og þeir fá atvinnuleyfi sitt. Þegar verkamenn þekkja réttindi sín geta allir unnið betur saman.

Atvinnuleyfi afhent einstaklingum hjálpar líka til að veita atvinnurekendum nauðsynlegt aðhald: Þeir sem fara illa með starfsfólk sitt eiga þá á hættu að missa það, en hinir sem virða réttindi þess eiga auðveldara með að fá til sín gott starfsfólk. Þá tryggir þetta að enginn getur misst starf sitt vegna atvinnurekenda sem ætla að reyna að blekkja erlent starfsfólk, á kostnað íslenska starfsfólksins. Þar fyrir utan myndi þetta fyrirkomulag gera atvinnumarkaðinn sveigjanlegri og þannig bæta efnahag þjóðarinnar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Til hamingju með glæsilega jómfrúarræðu Paul! Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 21.11.2007 kl. 16:37

2 Smámynd: Toshiki Toma

Hæ hæ.

Til hamingju með ræðuna! 
Frábært að eiga fulltrúa okkar innflytjenda á þinginu!
En það er auðvitað ekki aðeins fyrir innflytjendur, heldur alla í samfélaginu sem óska eftir jafnrétti manna.

Áfam, Paul!!  

Toshiki Toma, 21.11.2007 kl. 17:53

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

...ég er nú ekki alltaf sammála þér Paul, en þetta er FLOTT!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.11.2007 kl. 18:44

4 Smámynd: Paul Nikolov

Takk, öll saman. Og það er rétt hjá þér Toshiki að ég er ekki bara fulltrúi innflytjendanna. Mín von er sú að heyra frá hverju sem er það sem þeirra finnst, og það sem þau myndi vilja að sjá koma fram. Sendið mér bara línu. Ég er hér til að hlusta og síðan koma fram með þínum rödd.

Paul Nikolov, 21.11.2007 kl. 18:54

5 Smámynd: Guðrún Lilja

Til hamingju með ræðuna hún var flott hjá þér.

Guðrún Lilja, 21.11.2007 kl. 19:11

6 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Til Hamingju Paul! Það er nauðsynlegt að bæta réttindi nýbúa hér á landi. Þar sem eiginmaður minn og börn eru erlend, hef ég kynnst því af eigin raun hvernig útlendingar hafa það hér á landi og vegna lélegs skólakerfis var ég neydd til að flytja út aftur svo táningarnir mínir fengju menntun. Ég hef heyrt að 90% þeirra erlendu barna sem hefja menntaskólanám hér á landi, klári það ekki. Stærsti Þrándur í götu er íslenskan. Væri ekki nær að gera eins og þeir hafa þetta í Svíþjóð og hafa "Íslensku sem annað mál" í menntaskóla fyrir erlendu krakkana. Mér finnst það dálítið harkalegt að hleypa þeim ekki í uppí háskóla vegna þess að þau geta ekki lesið Íslendingasögurnar. Ég er sannfærð um að það er nauðsynlegt fyrir Íslenskt samfélag að bregðast við því strax að svona margir erlendir krakkar detta út úr námi. Eftir 10 ár verða 2 þjóðir hér í landinu, vel menntaðir íslendingar í góðum stöðum og illa menntaðir útlendingar í lélegum stöðum. Það þarf ekki mikið hugmyndarflug til að sjá hvaða afleiðingar það hefur. Erlendu krakkarnir  hafa lélega aðstoð með námið heima fyrir, einfaldlega vegna þess að foreldrarnir kunna ekki nógu mikið í íslensku til að hjálpa þeim. Mér finnst  nauðsynlegt að þau læri íslensku, en það þarf ekki að hafa jafn háar kröfur og fyrir íslensku börnin. Ég er sannfærð um að þessir útlensku krakkar verða verðmæt fyrir íslenskt samfélag ef þau fá jafna aðstöðu til náms. Heimurinn verður alltaf minni og samskiptin meiri við önnur lönd. Þessir krakkar hafa oft tungumálakunnáttu og  þekkingu á öðrum löndum sem íslendingar hafa ekki og geta nýst okkur vel ef þau fá almennilega menntun.

Ásta Kristín Norrman, 21.11.2007 kl. 19:27

7 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Flott ræða, flott frumvarp og ég vona að það verði samþykkt, enda um mikið réttlætismál að ræða.

Til hamingju með þetta allt.

Svala Jónsdóttir, 21.11.2007 kl. 20:15

8 Smámynd: Alexander Kristófer Gústafsson

Stefna svíþjóðar í innflytjendamálum hefur ekki virkað og er Svíþjóð dæmi um hvernig á ekki að fara að í þessum málum

Alexander Kristófer Gústafsson, 21.11.2007 kl. 20:56

9 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Veit ekki hvað Alexander hefur fyrir sér í að stefna Svía í innflytjendamálum virki ekki. Ég bý í landinu og veit að það er stór munur á að vera útlendingur þar en hér. Hitt er svo annað mál að Alexander hefur kannski betri lausn og væri þá fínt að heyra hana. Ég hef komið með erlend börn inní sænskt skólakerfi og gekk það mjög vel. Það er aftur á móti ekki hægt að segja um íslenskt skólakerfi.

Ásta Kristín Norrman, 21.11.2007 kl. 22:51

10 Smámynd: Alexander Kristófer Gústafsson

Innflytjendalöggjofin í sviss danmörku og japan eru til fyrirmyndar

Alexander Kristófer Gústafsson, 22.11.2007 kl. 11:32

11 Smámynd: Paul Nikolov

Innflytjendalöggjofin í sviss danmörku og japan eru til fyrirmyndar

!

Það hlýtur að vera grín. 

Paul Nikolov, 22.11.2007 kl. 11:43

12 Smámynd: Bergrún Íris Sævarsdóttir

Til hamingju! :) Glæsileg og þörf ræða.

Bergrún Íris Sævarsdóttir, 22.11.2007 kl. 12:10

13 Smámynd: Alexander Kristófer Gústafsson

Ég er alls ekki að grínast, innflytjendalöggjöfinn í Sviss japan og danmörku eru til fyrirmyndar og ættum við að taka upp svipuð

Alexander Kristófer Gústafsson, 22.11.2007 kl. 15:04

14 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Ég er alls ekki að grínast, innflytjendalöggjöfinn í Sviss japan og danmörku eru til fyrirmyndar og ættum við að taka upp svipuð

Það hlýtur náttúrulega að fara eftir hvert markmiðið er. Ef markmiðið er að innflytjendur hafi það gott í landinu og geti lifað þar eins og aðrir, er þetta rugl, en því miður þá eru svo margir útlendinga hatarar á Íslandi, svo stundum efast maður um að vilji sé fyrir hendi til að laga aðstæður útlendinga. Þeir eiga helst að vinna fyrir okkur skítaverkin, fá léleg laun og fá svo skömm í hattinn ef þeir fara ekki á rándýr íslenskunámskeið eftir langan vinnudag þegar börnin þeirra, sem eiga erfitt í skólanum, þurfa á þeim að halda.

Ásta Kristín Norrman, 22.11.2007 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband